Efnisorð

sunnudagur, 30. mars 2014

Uppskrift: Skellibjöllukjóll á Barbie

Í tilefni þess að ég er búin að opna facebook síðu fyrir Snedderí (www.facebook.com/snedderi )  ætla ég að bjóða uppá fyrstu NÁKVÆMU hekl-uppskriftina :P Vandaði mig sérstaklega í þetta skiptið, tók milljón myndir og heklaði kjólinn tvisvar til að sannreyna uppskriftina :)  Njótið vel :)



Kjóllinn er heklaður úr Mandarin Petit (veit því miður ekki númerið á honum, en þetta er skærasti græni liturinn) með heklunál nr. 2 og hann er því mjög þéttur og stífur. Ef á að hekla á mjaðmabreiðari barbie-dúkkur (eins og Fashionistas) væri sniðugra að nota nál nr. 3 eða 3.5 :) Myndi mæla með því að fólk sé með barbie-dúkku við höndina til að vera viss um að kjóllinn passi.

Byrjað er neðst á kjólnum og hann heklaður upp í einu stykki. Engar festingar eru á honum, dúkkunni er bara smeigt í hann. Perlurnar í honum eru Hama perlur, svona eins og maður straujar, en hægt er að nota hvaða perlur sem er, svo lengi sem bandið og heklunálin kemst í gegnum gatið :)

1. umf:
 Heklið 56 loftlykkjur og tengið saman í hring með keðjulykkju.

2. umf: 
Heklið 3 loftlykkjur, heklið stuðul í næstu loftlykkju. *heklið 2 loftlykkjur, hoppið yfir næstu 2 loftlykkjur, heklið 1 stuðul í næstu 2 loftlykkjur" endurtakið allt á milli * og * út umferð og festið síðan með keðjulykkju efst í loftlykkjurnar þrjár í byrjun umferðar (14 stuðlastoðir)


3. umf:
(þessi lýsing gerir ekki ráð fyrir perlum, enda eru þær smekksatriði. Skoðið myndirnar hér að neðan til að sjá hvernig á að setja perlurnar)
Heklið 3 loftlykkjur (jafngildir stuðli), heklið síðan 4 stuðla utanum og niður með fyrri stuðlinum í fyrstu stuðlastoðinni úr umferðinni á undan. Heklið eina loftlykkju. Heklið svo 5 stuðla utanum og upp með seinni stuðlinum: fyrsta laufið komið. Hoppið síðan yfir næstu stuðlastoð, og í þá þarnæstu gerið þið eins: 5 lykkjur niður fyrri stuðulinn, ein loftlykkja á milli og svo 5 stuðlar aftur upp seinni stuðulinn. Ath. að gott er að snúa verkinu á hlið eftir því í hvora áttina er heklað. Endurtakið lauf út umferð svo það séu 7 lauf. Festið með keðjulykkju efst í loftlykkjurar þrjár í byrjun en stingið nálinni einnig niður á milli stuðlanna tveggja úr umferðinni á undan, áður en bandið er sótt.






Ath: Perlurnar enda á því að liggja soldið skakkar, en persónulega finnst mér það flott. Mögulega væri þó fallegt að gera eina loftlykkju áður en perlan er sett uppá nálina, en það er smekksatriði :)

4. umf:
Heklið 3 loftlykkjur (jafngildir stuðli) og heklið einn stuðul á sama stað (í miðjunni á fyrsta laufinu). *Heklið 2 loftlykkjur, heklið tvo stuðla í miðjuna á laufinu, heklið 2 loftlykkjur, heklið tvo stuðla í bilið á milli laufanna*. Endurtakið á milli * og * út umferð, festið á sama hátt og áður með keðjulykkju.

5. umf:
Endurtakið 3. umferð.

6. umf:
Endurtakið 4. umferð, en í staðinn fyrir 2 loftlykkjur á milli stuðlastoða, er einungis gerð ein.

7. umf:
Endurtakið 3. umferð en í staðinn fyrir 5 stuðla hvoru meginn, eru einungis 4.

8-9. umf:
Endurtakið 6-7 umferð.

10. umf:
Endurtakið umferð 6, en í staðinn fyrir 1 loftlykkju, er engin.
*Ath. þetta er í raun stuðlastoðaumferð, en ég setti engin krókódílalauf í hana því ég ætlaði að setja lítinn borða eins og belti inná milli gatana. Hinsvegar má vel setja 4-stuðla lauf utanum þessar stuðlastoðir til að losna við götin og halda svo bara áfram með elleftu umferð sem tólftu :)

11. umf:
Heklið eina loftlykkju, *heklið fastapinna á milli stuðlanna tveggja. Heklið fastapinna í bilið á milli stuðlastoða* Endurtakið út umferð (28 fastapinnar).



12. - 34. umf:

Heklið fastapinna í hring upp búkinn ca. 22 umferðir. Þegar ég gerði kjólinn í fyrsta skiptið, miðaði ég lengd bolsins við lengdina á dúkkunni, eða semsagt hvar kjóllinn sæti best á mjöðmunum þannig að fastapinnaumferðirnar næðu akkúrat uppundir brjóstin (sjá mynd fyrir neðan) Síddin á kjólnum er að sjálfsögðu smekksatriði :)

ATH: til að kjóllinn sé fallegri að aftan, er betra að hekla fastapinnana í beinann hring, semsagt vera ekki að festa með kekkju á milli umferða

Þá er að móta kjólinn utanum brjóstin. Þessi partur er ekki brotinn upp skikkanlega eftir umferðum, enda er hann heklaður samfellt eins og búkurinn.

Staðsetning brjóstanna á kjólnum er svosem ekkert svakalega mikilvæg þar sem kjóllinn er nánast alveg eins að framan og aftan, en ég valdi bara lykkju sem er ca. fyrir ofan byrjun fyrstu umferðarinnar og setti ömmuspennu í hana (af því ég á ekki prjónamerki)  og sú lykkja telst vera sú síðasta í umferðinni.

Að merktu lykkjunni ómeðtalinni, heklið 11 fastapinna í næstu 11 göt. Í tólfta gatið heklið 6 fastapinna, síðan einn fastapinna í næstu fjögur göt (hér þarf að passa að hoppa ekki óvart yfir það fyrsta því þetta verður allt mjög þétt og stíft) heklið síðan aftur 6 fastapinna í næsta gat. Heklið fastapinna út umferð.

Heklið 3 umferðir af fastapinnum.

Nú þarf að færa prjónamerkið upp "beint á ská" eins og sjá má á næstu mynd (ath. að þegar ég tók myndina var ég komin aðeins lengra, en þið sjáið allavega hvað ég á við með "beint á ská" :P )

Að merktu lykkjunni ómeðtalinni, heklið 18 fastapinna. Heklið næstu 2 lykkjur saman og svo næstu tvær lykkjur eftir það saman (þetta eru lykkjurnar fjórar á milli brjóstanna). Heklið fastapinna út umferð.

Heklið eina umferð.

Í næstu umferð er handvegurinn mótaður:
Færið prjónamerkið upp aftur.
Að merktu lykkjunni ómeðtalinni, heklið 6 fastapinna. Heklið 12 loftlykkjur. Hoppið yfir fimm göt. Heklið 6 fastapinna. Heklið næstu tvær lykkjur saman og svo næstu tvær lykkjur eftir það saman. Heklið 6 fastapinna. Heklið 12 loftlykkjur. Hoppið yfir fimm göt. Heklið 10 fastapinna.


Inní handveginn: 2x fastapinni, 2x hálfur stuðull, 2x stuðull, 1x tvöfaldur stuðull, 2x stuðull, 2x hálfur stuðull, 2x fastapinni.
Heklið einn fastapinna, setjið síðan keðjulykkjur í næstu 11 göt og 1 fastapinna í næsta gat.
Heklið inní seinni handveg eins og þann fyrsta.
Heklið keðjulykkjur í næstu 4 göt.


Slítið frá og gangið frá endum.

Og þar hafiði það :) 

Ekki hika við að senda mér línu ef þið hafið einhverjar spurningar eða ef þið takið eftir villu, ég er enn að æfa mig í uppskriftarskrifum :)



Einnig, ef þið heklið kjólinn, þætti mér svakalega skemmtilegt ef þið mynduð pósta mynd af honum á facebook-vegginn hjá mér :D

Kv. Jódís Eva

3 ummæli:

  1. Vá hvað þetta er flott hjá þér, hlakka mikið til að prófa :)
    Kv Fjóla Borg

    SvaraEyða
  2. Ekkert smá flott! Er byrjuð á einum út bleiku bómullargarni frá Søstrene Grene :-)

    SvaraEyða
  3. Þetta eru bara snilldar leiðbeiningar hjá þér. Á eftir að kíkja oft inná hjá þér.
    Kv. Sigga

    SvaraEyða