Ég er búin að vera á fullu við að útbúa uppskrift að barbie-kjól(um) og því mikið búin að umgangast dúkkur heimilisins og taka myndir af þeim... og þvílík flókatrippi!
Þá mundi ég eftir
pinna sem ég fann á Pinterest fyrir soldlu síðan, pinna sem ég hafði óskaplega litla trú á, þetta leit út eins og galdrar! ... og viti menn, þetta virkaði eins og galdrar :O
Pinninn mælir með því að setja smá mýkingarefni í spreybrúsa og fylla hann svo upp með vatni og spreyja í hárið á dúkkum áður en maður greiðir þeim. Engann átti ég brúsann, en setti glundrið í staðinn í mjólkurglas. Fyrst byrjaði ég bara á því að dýfa greiðu ofaní, en í lokin var ég bara farin að dýfa hárinu sjálfu ofaní og kreista aukavatnið úr.
Ég mæli með því að setja handklæði í fangið áður en byrjað er því þær fóru allar soldið mikið úr hárum (þó ekkert óeðlilega, það var bara mikið af lausum hárum föst í flókanum)
Hér má sjá afraksturinn :)
|
Það er ekki nema mánuður síðan þessi skreið úr kassa og því hárið ekki mikið flókið, en það er krullað og var byrjað að verða soldið tjásulegt. Mér tókst að greiða í gegnum þetta á undir tveim mínútum :) |
|
Þessi er ögn eldri, eða síðan um jólin og kominn soldið góður flóki... en það var sama sagan, hann rann allur úr á innan við þrjár mínútur :) |
|
Gat ekki TRÚAÐ ÞVÍ að þetta flókatrippi, í orðsins fyllstu merkingu, myndi nokkurntíma geta orðið svona glæsilegt :P Hann Maximus er búin að veltast um í dótakössum núna í 2.5 ár og dúið að sjálfsögðu eftir því. Það tók aðeins lengri tíma en með Bratz að kúga faxið til hlýðni, en það var samt orðið alveg rennislétt eftir rúmlega 5 mínútur :D Ákvað svo bara að skella honum í smá klippingu í leiðinni :P |
|
Og svo: Le Piece de Réstistance! EEEELDGÖMUL dúkka sem ekki var lengur með hár heldur bara eitthvað sem leit út eins og köttur hafi hrækt því upp! Það var eins og að reyna að greiða lopapeysu sem hefur verið þæfð í þvottavél, jafnvel þegar ég hafði dýft henni í mýkingarglundrið. En viti menn, þetta hafðist! Ég braut fjórar tennur úr greiðunni í látunum, en fjandinn hafi það, það hafðist!! Auðvitað er hárið enn voða púffað, en það er hægt að greiða alls staðar í gegnum það og þá er nokkuð stór sigur unninn :P |
Já þar hafiði það! Ég held í alvörunni að engin hefði getað gefið mér betri gjöf þegar ég var lítil en leið til að geta greitt barbie-dúkkunum mínum aftur, mæli eindregið með þessu :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli