Efnisorð

miðvikudagur, 26. mars 2014

Uppskrift fyrir Barbie: Brúðarkjóll og sumarkjóll.

    Undanfarin ár, og sérstaklega síðasta mánuð, hef ég haft brennandi áhuga á því að hanna prjóna- og hekluppskriftir; ... en það verður að horfast í augu við staðreyndir: til að þróa uppskrift og fullkomna, verður að endurtaka hana nokkrum sinnum. Og mér tekst það óskaplega sjaldan...
    Þegar ég byrja fyrst að pæla í uppskrift fer heilinn á mér gjörsamlega á óverdræf og kemur upp með 50 þúsund hugmyndir og ég hekla/prjóna eins og djöfullinn sé á hælunum á mér eins margar hugmyndir og ég mögulega get áður en áhuginn deyr út - þetta kalla ég "brainstorming"... en svo þegar kemur að því að skrifa niður, endurtaka eða fínslípa, þá lek ég niður eins og deigklumpur og kem nákvæmlega engu í verk... sem þýðir jú, mikið af frumlegheitum.... en ekkert meira en það :P Einhverjir myndu kannski ráðleggja mér að skrifa niður jafnóðum, og hef ég oft reynt það.. en þar sem ég rek upp svona ca milljón sinnum og prufa nýtt, fer bara hreinlega ALLT í graut. Ég skrifa samt sumt niður, ég segi það ekki :)

Allavega... nýjasta æðið eru barbie-kjólar: mjög heppilegt verkefni fyrir mig þar sem hver og einn tekur ekki nema eina- eina og hálfa kvöldstund og möguleikar á frumlegheitum eru lúmskt margir :)

Ég hef ákveðið að gefast upp í bili á því að útbúa fullkomna uppskrift og ætla í staðinn bara að setja inn myndir af uppáhaldskjólunum mínum með lauslegri lýsingu á aðferðinni sem ég notaði :) Þeim sem taka sér fyrir hendur að prufukeyra þetta er ráðlagt að vera með barbiedúkku við hendina á meðan heklið stendur yfir til að sannreyna stærðir :)

Anyways hér kemur fyrsti kjóllinn...

Kjólatörnin 2014 byrjaði á þessum brúðarkjól sem er heklaður úr Mandarin Heklugarni með nál nr 2. Ég var nýbúin að læra svona krókódílahekl útfrá þessari uppskrift (lærði það reyndar alveg snarvitlaust fyrst af því ég kann ekki að lesa...en það er annað mál) og sá fyrir mér réttilega að það myndi koma vel út neðst á pilsi, sérstaklega með smá perlum og smá fastapinnakafla á milli krókódílalaufa svo perlurnar gætu betur notið sín :)

Ég ákvað að ég vildi hafa kjólinn soldið útvíðann og tvöfaldaði því uppfitið úr jólatrésuppskriftinni (112 loftlykkjur). Ef ég man rétt, þá gekk eitthvað brösulega að fá stuðlastoðirnar til að passa rétt, en 56 loftlykkjurnar ganga heldur aldrei alveg upp hjá mér því ég hekla svo undarlega :P... en allavega hagræddi ég þessu þannig að ég fékk upp 28 stuðlastoðir sem síðan urðu 14 krókódílalauf. Ég ætla ekki að lýsa því hér hvernig ég heklaði perlurnar á en þær eru líka aukaatriði hérna :)
 ATH: hérna má finna upplýsingar (og myndir) um hvernig á að hekla perlurnar í :)

Næst gerði ég síðan 3 umferðir af fastapinnum (84 í hverri umferð). Aftur krókódílahekl, en í þessari umferð er einungis ein loftlykkja á milli stuðlastoða og sömuleiðis einungis einn fastapinni á milli. Svo gerði ég aftur 3 umferðir af fastapinnum.
 
Pilsið er svo tekið inn með því að gera þrjár stuðlastoðaumferðir, semsagt tveir stuðlar og tvær loftlykkjur til skiptis. Hjá mér urðu það 21 stuðlastoð í hverri umferð, en það er ekkert heilög tala.
Í næstu þrem umferðum eru enn 21 stuðlastoð, en einungis 1 loftlykkja á milli þeirra. Loks eru þrjár umferðir þar sem engin loftlykkja er.
Þetta er soldið ruglingslega orðað hjá mér kannski, en þetta er allt eitthvað slump bara og jafnast út á endanum :P

Þá taka við fastapinnar í gríð og erg, ca. 40 umferðir, eða uppfyrir rassinn. Þeir eru 42 í fyrstu umferð (einn fyrir hvern stuðul í umferðinni á undan) en svo fór ég að fækka þeim jafnt og þétt sitthvoru megin þangað til mér fannst kjóllinn vera orðinn hæfilega þröngur. Ég þrengdi þennan aðeins of mikið af því hann virtist í fyrstu gefa svo mikið eftir, en svo varð ekki raunin hehe...en ég var allavega með 36 lykkjur eftir 6 umferðir :)

Eins og sjá má, er bakið alveg opið. Framstykkið er heklað fram og til baka og eru ca. 30 lykkjur í fyrstu umferðinni, en síðan er tekin út ein lykkja í byrjun hverrar umferðar þangað til 16 lykkjur eru eftir.. Hérna strandaði ég enn og aftur þegar ég ætlaði að fara að gera "alvöru" uppskrift" því ég er ekki alveg klár á því hvernig ég á að orða þennan part rétt... en vonandi gera myndirnar eitthvað gagn  (ath. að á þessari mynd og þeim sem á eftir koma er búið að hekla kant meðfram öllu framstykkinu sem var að sjálfsögðu gert eftir á, en gæti ruglað einhverja örlítið á þessu stigi málsins).
Ath: hérna sést soldið vel hversu alltof þröngur kjóllinn er, rassinn sést í gegn :P

Hérna sést úrtakan ágætlega.

Þegar úrtökunni var lokið, heklaði ég 6 umferðir af fastapinnum. Í sjöundu umferðinni mótaði ég svo hálsmálið (2x tvöfaldur stuðull, 2x stuðull, 1x hálfur stuðull, 6x fastapinni, 1x hálfur stuðull, 2x stuðull, 2x tvöfaldur stuðull). 
Svo heklaði ég fastapinnakannt kringum allt framstykkið til að jafna það út og festi (löng) loftlykkjubönd báðum megin og svo var bara að troða tilvonandi brúður í meistaraverkið!

Ég prufaði svo að gera annan kjól með mjög svipuðu sniði:
Hérna eru bara 56 loftlykkjur í uppfitinu og krókódílaheklið er alveg eins og í jólatrésuppskriftinni. Síðan taka við fastapinnar eins og í hvíta kjólnum, aðeins tekið inn eftir þörfum og endar í ca. 40 fastapinnum. Svo er heklað beint upp fyrir mittið og framstykkið gert eins :) 

Vonandi getur einhver nýtt sér þetta, ekki hika við að skilja eftir comment ef það eru einhverjar spurningar :)

Kv. Jódís Eva

2 ummæli:

  1. gaman að sjá þetta, er að reyna að prjóna kjóla en gengur misjafnlega sérstaklega efst. á örugglega eftir að nýta mér þetta til hliðsjónar :) kv. Sigríður

    SvaraEyða
  2. Glæsilegt :) Kíkju líka á þessa uppskrift, hún er ítarlegri :) http://snedderi.blogspot.com/2014/03/uppskrift-skellibjollukjoll-barbie.html

    SvaraEyða