Efnisorð

föstudagur, 4. apríl 2014

Uppskrift: Árniður - heklaðar ermar!

Nafnið Árniður fékk ég með því að biðja um aðstoð við nafngiftinna inná facebook síðunni Handóðir Heklarar og var það kona að nafni Jónína Kjartansdóttir sem stakk uppá því. Mér fannst það passa einstaklega vel því bakstykkið minnir mig soldið á öldutoppa :)

Þegar ég var að ákveða stærðina á þessum ermum var ég með 7 ára dóttur mína í huga, en þær eru hannaðar þannig að rosalega auðvelt er að þrengja eða víkka handveginn og lengja ermarnar eftir þörfum og óskum þegar fram líða stundir. Þannig að hvort sem á að hekla á 3ggja ára eða 10 ára, er byrjað eins :)

Þessar tilteknu ermar voru heklaðar með nál nr 3.5 úr þessu 100% bómullargarni á næstu mynd en fyrsta atrennan að ermunum var hekluð úr King Cole Glitz akrýl-garni úr rúmfatalagernum og stærðin varð nánast alveg sú sama. Til að minnka hana örlítið, myndi ég nota lanett eða kambgarn og nota nál nr. 2.5 :)

Aðferð:
Byrjað er í miðjunni á bakstykkinu og heklað fram og til baka langsum. Síðan er slitið frá og heklað frá miðjunni alveg eins í hina áttina til að mynda speglun. Handvegirnir eru síðan heklaðir saman og kantur heklaður í hring utanum búkinn og framan á ermarnar.

Vindum okkur í þetta :)

Bakstykki, fyrri partur:

1. umf: Helkið 123 loftlykkjur.

2. umf: í 3 lykkjuna frá nálinni heklið 1 fastapinna. Heklið fastapinna út umferð (122 fp)

3. umf: Heklið 2 loftlykkjur og heklið fastapinna í næstu lykkju. Heklið fastapinna út umferð (122 fp)

4. umf: Heklið 3 loftlykkjur og setjið stuðul í næstu lykkju. Heklið 1 loftlykkju og hoppið yfir næstu lykkju.
 *Heklið stuðul í næstu lykkju, heklið 1 loftlykkju, hoppið yfir næstu lykkju*
Endurtakið allt á milli * og * út umferð þangað til 3 lykkjur eru eftir, heklið þá eina loftlykkju, hoppið yfir næstu lykkju og setjið stuðul í síðustu tvær lykkjurnar. (60 1ll-göt)

5. umf: Þessi umferð er eins og 4. umferð: Heklið 3 loftlykkjur, heklið stuðul í aðra lykkjuna. Heklið síðan stuðla og loftlykkjur til skiptis þannig að stuðlarnir sitji ofaná stuðlunum úr 4. umferð. Endið á tveim stuðlum hlið við hlið.

6. umf: Heklið 2 loftlykkjur og heklið fastapinna í næstu lykkju. Í fyrsta 1ll-gatið, heklið 1 fastapinna. Í öll hin 1ll-götin nema það síðasta, heklið 2 fastapinna. Í síðasta fer 1 fastapinni. Heklið fastapinna í síðustu 2 lykkjurnar.

7. umf: endurtakið 3. umferð.

8. umf: Heklið 2 loftlykkju og heklið fastapinna í næstu lykkju.
*Heklið 4 loftlykkjur, hoppið yfir 3 lykkjur, heklið fastapinna í næstu lykkju*
Endurtakið allt á milli * og * út umferð = 30 stór göt.Endið á 1 fastapinna í síðustu lykkjuna.


9. umf: Heklið 2 loftlykkjur og heklið fastapinna í næstu lykkju. Inní fyrsta 4ll-gatið heklið þið 1 fastapinna.
 *inní næsta 4ll-gatið heklið þið 4 stuðla, 2 loftlykkjur og 4 stuðla. Heklið einn fastapinna í næsta 4ll-gat. Heklið 4 loftlykkjur. Stingið nálinni inní 3 loftlykkjuna, dragið bandið í gegn og einnig í gegnum lykkjuna nú þegar á nálinni (í raun bara keðjulykkja svo myndist lítill knúpppur). Heklið 3 loftlykkjur. Heklið einn fastapinna í næsta 4ll-gat.*
Endurtakið allt á milli * og * þangað til komið er að næst-síðansta 4ll-gatinu. Inní það fer 4st, 2 ll, 4st, og í síðasta gatið fer 1 fastapinni. Heklið tvo fastapinna í síðustu 2 lykkjurnar í umferðinni.




 10. umf: Heklið 3 loftlykkjur og heklið stuðul í næstu lykkju.
 *Heklið fimm loftlykkjur og heklið fastapinna í næsta 2ll-gat. Heklið 5 loftlykkjur og heklið keðjulykkju í gegnum næsta keðjulykkjuknúpp*
Endurtakið allt á milli * og * út umferð. Endið á fastapinna í síðasta 2ll-gatið, heklið 5 loftlykkjur og heklið stuðul í síðustu 2 lykkjurnar.


11. umf: Heklið 2 loftlykkjur og heklið 1 fastapinna í næstu lykkju. *Inní næsta 5ll-gat heklið 5 fastapinna. Heklið fastapinna í næstu lykkju. Inní næsta 5ll gat heklið 5 fastapinna. Heklið svo fastapinna á sama stað og keðjulykkjan fór í 10. umferð: í gegnum keðjulykkjuknúppinn úr 9. umferð* Endurtakið allt á milli * og * út umferð. Endið á fastapinna í síðustu 2 lykkjurnar.


 12 - 22. umf: Endurtakið 3. umferð.
Slítið frá.
*ATH!* Ef þið viljið hafa  ermarnar þrengri, er hægt að hafa færri fastapinnaumferðir hérna. Af því ermarnar eru speglaðar, er hægt að rekja upp báðum megin áður en handvegurinn er heklaður saman sem er mjög hentugt :)



Bakstykki, seinni partur:

Snúið verkinu eins og næsta mynd sýnir:


**Passið mjög vel að verkið snúi rétt, semsagt að 9. umferð snúi pottþétt upp því ef þið byrjið óvart vitlausu megin, speglast ermarnar ekki rétt (ég gerði þau mistök í fyrstu atrennu á uppskriftinni, þá byrjaði ég hinum megin og þurfti að slíta frá og færa mig yfir þegar kom í ljós að 9. umferð hérna megin passaði ekki við hinum megin :P Þetta er ekki neitt sem fólk tekur eftir... en samt :)

1. umferðin af seinni partinum er miðjan á verkinu og er eins og 4. umferðin af fyrri partinum. Heklað er í baklykkjurnar á uppfitinu eins og sést á myndinni fyrir neðan.

2. umferðin er eins og 6. umferð af fyrri partinum en er í raun 1. umferð ef maður er að spá í spegluninni. Þetta er örlítið ruglingslegt af fyrrabragði, en næsta mynd útskýrir það vonandi betur :)
3. umferðin er eins og 2. umferðin af fyrri partinum og svo er bara haldið áfram með 3-22 umferð af fyrri parti. 


Á þessum tímapunkti er komin stórfínn löber eða jafnvel taska ef þetta er brotið saman og saumað fóður inní :P En ég ætla að gera þetta að ermum og held því áfram á þeirri leið. Hinsvegar get ég ekki verið jafn nákvæm frá þessum tímapunkti því kantarnir geta verið soldið misjafnir eftir því hvernig maður gerir næsta skref.

Handvegur:

Nú þarf að hekla eða sauma saman þá parta af stykkinu sem verða handvegirnir. Ég heklaði saman 20 lykkjur hvoru megin, en hversu mikið er heklað saman fer eftir stærð barnsins. 20 lykkjur er passlegt fyrir dóttur mína sem er mjög grönn og 7 ára, en svo passaði það líka ágætilega á son minn sem er þéttur bolti en bara þriggja og hálfs. Þannig að ég myndi ráðleggja ykkur að fá að máta ermarnar á barnið sem á að fá þær :) Munið samt að verkið á eftir að tegjast soldið þegar skolað er úr því, sérstaklega útaf öllum stóru götunum.



Búk-kantur:

Nú er komið að því að hekla búk-kantinn (ég kalla þetta búk-kant því ég hef ekki betra orð, þetta er semsagt kanturinn sem liggur meðfram handvegunum, yfir axlirnar og yfir bakið).

1. umf: Inní annað hvort handakrikahornið, heklið 3 loftlykkjur, heklið stuðul í sömu lykkju, heklið 2 loftlykkjur og 2 stuðla, allt í sömu lykkju. *Hoppið yfir 4 lykkjur. Í næstu lykkju heklið 2 stuðla, tvær loftlykkjur og 2 stuðla*. Endurtakið allt á milli * og * út umferð. Ég var með 33 stykki af 2st-2ll-2st laufum á mínum ermum, en þessi tala getur verið misjöfn eftir því hversu mikið var heklað saman af handveginum. Festið með keðjulykkju efst í 3ll í byrjun umferðar.
      *ATH* Ef það passar ekki fullkomlega að hafa 4 lykkjur á milli allra laufana er bara að hagræða þessu örlítið eftir þörfum, endinn á umferðinni lendir undir handleggnum og því mjög erfitt að sjá ef t.d. 2 síðustu laufin eru bara með 3 lykkjur á milli sín.

2. umf: heklið keðjulykkju inní fyrsta 2ll-gatið. Heklið 3 loftlykkjur. Heklið 2 stuðla, 2 loftlykkjur, og 3 stuðla. *Í næsta 2ll-gat, heklið 3 stuðla, 2 loftlykkjur og 3 stuðla.* Endurtakið allt á milli * og * út umferð og festið með keðjulykkju við byrjun umferðar.
Slítið frá.


Erma-kantur

1. umf: Hér þarf fyrst að hekla fastapinnakant til að jafna ermarnar út. Hjá mér urðu það 51 fastapinni en þessi tala getur rokkað örlítið án þess að sjáist neinn munur. Þetta er ca. 1 fastapinni fyrir hverja fastapinnaumferð á bakstykkinu og tveir fyrir hverja stuðlaumferð. Festið með keðjulykkju við byrjun umferðar.

2. umf: Þessi umferð er eins og 1. umferð af búk-kantinum. Ég var með 11 stykki af 2st-2ll-2st laufum hérna, en eins og á búk-kantinum, er þessi tala ekki heilög.
3. umf: Heklið keðjulykkju inní næsta 2ll-gat. Heklið 3 loftlykkjur, 1 stuðul, 2 loftlykkjur, og 2 stuðla í sama gat. *Í næsta 2ll-gat heklið 2 stuðla, 2 loftlykkjur, 2 stuðla.* Endurtakið allt á milli * og * út umferð og festið með keðjulykkju við byrjun umferðar.
4. umf: Hekluð eins og 2. umferð af búk-kantinum.
5. umf: Endurtakið umferðina á undan. 

Heklið eins á hina ermina.
Slítið frá og gangið frá endum.

Það er soldið bras að skola úr þessum ermum og móta þær svo þær verði fallegar, en ég myndi mæla með að láta þær þorna á svona uppblásnu herðatré eins og t.d. þessu 

Já, þar hafiði það :) Ég er búin að lesa ca. milljón sinnum yfir uppskriftina og er búin að grípa nokkrar villur og laga en þetta er allt farið að dansa fyrir augunum á mér á þessum tímapunkti og ég bara verð að pósta þessu áður en ég verð rugluð hehe :P Ef þið rekið augun í eitthvað misræmi eða eitthvað sem er illskiljanlegt, þá bið ég ykkur innilega um að láta mig vita svo uppskriftin geti verið sem nákvæmust, ég vil að ALLIR skilji hana, ekki bara lengra komnir :) Og auðvitað ef gengur vel væri gaman að heyra það líka, ég er enn að æfa mig í uppskriftarskriftum :)

Einnig ef þið heklið svona ermar, þætti mér alveg gjörsamlega yndislegt ef þið mynduð linka á uppskriftina mína eða facebook vegginn minn ef þið póstið mynd af þeim einhversstaðar (og megið jafnvel skella myndinni á facebook-vegginn hjá Snedderíi :)

Með bestu kveðju,
Jódís Eva 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli