Efnisorð

miðvikudagur, 2. apríl 2014

Lærðu að læra á gítar!

*DISCLAIMER*: Ef einhver sem kann í alvöru á gítar sér þessa færslu og hneikslast yfir vinnubrögðunum vil ég bara taka það fram strax að ég kann eiginlega ekki rass í bala á gítar. Ég er soldið mikill söngfugl og aðal drifkrafturinn þegar ég var að læra á gítar 14 ára var að geta glamrað með gólinu og því er allt sem ég spila í sínu einfaldasta formi. Það var bara svona sem ég lærði og mér datt í hug að það gæti nýst einhverjum :)

Já ég semsagt ákvað að taka mér smá pásu frá heklinu og skrifa eina litla færslu um allt annað: Gítargrip! Það er ekki beinlínis handavinna en það er svo sannarlega snedderí! (PS - ég komst að því eftir að ég ákvað nafn á bloggið mitt að snedderí er ekki orð eins og ég hélt *andvarp*... en ég er hér til að segja ykkur að það er bara VÍST orð! Það er nafnorðsútgáfan af lýsingarorðinu sneddí og gæti mögulega verið besta orð í heimi! Just sayin ;) 

Anyways...

Ég hef oft heyrt fólk segja að það vildi óska þess að það gæti spilað á gítar en lætur svo ekki verða af því, það sér fyrir sér dýra einkakennara og marga klukkutíma við að mastera nótur og eitthvað svoleiðis húllumhæ...
En málið er að það þarf ekki að vera svona flókið. Gítar er ekki eins og píanó eða fiðla og ef þig langar bara að læra nóg til að geta spilað undir hópsöng á ættarmóti, þá er ég með lausn fyrir þig...

Skjáskot tekið af www.guitarparty.com :)

Þegar leitað er að gítargripum á www.guitarparty.com er alltaf svona blár kassi hægra megin sem heitir "Hljómar í laginu" (Hljómar og grip eru það sama). Sömuleiðis eru nánast alltaf svona myndir í gripabókum (þannig lærði ég í "gamla daga") Og þessir litlu rúðustrikuðu kassar eru í raun litlir gítarhálsar og þessar doppur eru í raun litlir puttar :D

Lemmér að útskýra betur með mynd:

Að sjá fyrir sér gítarhálsinn

 

Það sem ruglaði mig alltaf fyrst þegar ég var að læra var það að mér fannst skýringarmyndirnar alltaf snúa vitlaust miðað við hvernig ég hélt á gítarnum og því ímynda ég mér að það gæti hjálpað sumum að sjá þetta svona á hlið. Eins og þið sjáið, er ég með puttana á sama stað og doppurnar á myndinni. Skýringamyndirnar sem fylgja með lögunum eru náttúrulega minni en skýringamyndin mín og ekki með strengina merkta, en um leið og maður sér fyrir sér gítarhálsinn, þá smellur eitthvað í hausnum og maður getur tengt doppurnar við puttana og allt í einu getur maður spilað á gítar! (Doppurnar og X-in sem eru fyrir ofan gripið er eitthvað sem ég pæli aldrei í, hefur að gera með hvaða strengi á að slá í hvert sinn, en ég slæ þá bara alla sama hvað hehe)

Það er sama málið með öll hin gripin, ef maður skilur doppurnar, getur maður spilað gripið. Það er miserfitt að halda strengjunum niðri eftir gripum og það getur verið fjári erfitt að vinna upp sigg á fingurgómunum (mæli með nælonstrengjum til að byrja með, þeir meiða ekki eins mikið og hljómurinn er svo fallegur, finnst mér ) og það þarf að læra að halda taktinum þegar strengirnir eru slegnir... en þegar þessi skilningur á gripunum er kominn, liggur ekki svo mikið á hinu, það kemur með tímanum.

 Vöðvaminnið mikilvægast 

 

Að muna öll gripin er náttúrulega trix útaf fyrir sig og sérstaklega að læra hvernig á að skipta á milli gripa. En það er bara eitthvað sem kemur með æfingunni, það þarf að þjálfa vöðvaminnið ... ég get t.d. vélritað alveg svakalega hratt, en heilinn á mér man engan vegin í hvaða röð stafirnir eru á lyklaborðinu, bara puttarnir. Það er eins með gítarinn, ef einhver spyr mig að fyrra bragði hvar vísifingurinn á að vera í C-gripi, þarf ég að gera gripið í loftinu til að geta sagt það (sér einhver annar fyrir sér Phoebe í Friends að gera Bearclaw og The Old Lady þegar ég segi þetta?? ;) )


Hérna er mynd af D-gripi og það er sama sagan þar :) By the way, EKKI reyna að spila með svona langar neglur, það er vita vonlaust, ég bara gleymdi að fara í klippingu fyrir myndatökuna, hef ekki spilað soldið lengi ;)

Að spila eftir gripa "uppskrift"

 

Þegar þú ert farin/n að geta gert 2-3 grip, þá er að finna eitthvað lag til að spila til að æfa sig að skipta á milli gripa :) Ég byrjaði sjálf á Litlu Andarungunum og gripunum A, E og D en það má byrja á nánast hverju sem er, á meðan það eru ekki of mörg grip í laginu.

Svo er spurning um að einfalda gripin. Flestir gítarkennarar myndu líklega fara að hágráta ef þeir sæu mig spila þar sem að ég geri t.d. mjög oft bara venjulegt C-grip þegar leiðbeiningarnar segja mér að gera Csus7 eða Cadd9 sem er svona fancy-smancy C-grip... en lífið mitt er bara nógu flókið án þess að vera að flækja það meira og C-grip dugar mér alveg til að geta sungið með því (og það dugar svo sannarlega sem undirspil fyrir blindfulla ömmu þína og frændur við varðeldinn í sumar ;) ) Hinsvegar mæli ég alveg með því seinna meir að læra þessi flóknari grip, Cadd9 er til dæmis óskaplega fallegt, hljómar mun draumkenndara en venjulegt C :) 

En já, skoðiði lagið sem ég setti inn þarna áðan, það er frekar straight forward: þegar stafurinn fyrir ofan orðin breytist, breytiru um grip. Ekki þarf að slá neinn flókinn takt til að byrja með, bara renna puttunum/nöglinni niður strengina með reglulegu millibili.

Ég vona innilega að þetta hafi hjálpað einhverjum, endilega leyfið mér að heyra hvað ykkur finnst :)


Engin ummæli:

Skrifa ummæli