Efnisorð

sunnudagur, 30. mars 2014

Uppskrift: Skellibjöllukjóll á Barbie

Í tilefni þess að ég er búin að opna facebook síðu fyrir Snedderí (www.facebook.com/snedderi )  ætla ég að bjóða uppá fyrstu NÁKVÆMU hekl-uppskriftina :P Vandaði mig sérstaklega í þetta skiptið, tók milljón myndir og heklaði kjólinn tvisvar til að sannreyna uppskriftina :)  Njótið vel :)



Kjóllinn er heklaður úr Mandarin Petit (veit því miður ekki númerið á honum, en þetta er skærasti græni liturinn) með heklunál nr. 2 og hann er því mjög þéttur og stífur. Ef á að hekla á mjaðmabreiðari barbie-dúkkur (eins og Fashionistas) væri sniðugra að nota nál nr. 3 eða 3.5 :) Myndi mæla með því að fólk sé með barbie-dúkku við höndina til að vera viss um að kjóllinn passi.

Byrjað er neðst á kjólnum og hann heklaður upp í einu stykki. Engar festingar eru á honum, dúkkunni er bara smeigt í hann. Perlurnar í honum eru Hama perlur, svona eins og maður straujar, en hægt er að nota hvaða perlur sem er, svo lengi sem bandið og heklunálin kemst í gegnum gatið :)

1. umf:
 Heklið 56 loftlykkjur og tengið saman í hring með keðjulykkju.

2. umf: 
Heklið 3 loftlykkjur, heklið stuðul í næstu loftlykkju. *heklið 2 loftlykkjur, hoppið yfir næstu 2 loftlykkjur, heklið 1 stuðul í næstu 2 loftlykkjur" endurtakið allt á milli * og * út umferð og festið síðan með keðjulykkju efst í loftlykkjurnar þrjár í byrjun umferðar (14 stuðlastoðir)


3. umf:
(þessi lýsing gerir ekki ráð fyrir perlum, enda eru þær smekksatriði. Skoðið myndirnar hér að neðan til að sjá hvernig á að setja perlurnar)
Heklið 3 loftlykkjur (jafngildir stuðli), heklið síðan 4 stuðla utanum og niður með fyrri stuðlinum í fyrstu stuðlastoðinni úr umferðinni á undan. Heklið eina loftlykkju. Heklið svo 5 stuðla utanum og upp með seinni stuðlinum: fyrsta laufið komið. Hoppið síðan yfir næstu stuðlastoð, og í þá þarnæstu gerið þið eins: 5 lykkjur niður fyrri stuðulinn, ein loftlykkja á milli og svo 5 stuðlar aftur upp seinni stuðulinn. Ath. að gott er að snúa verkinu á hlið eftir því í hvora áttina er heklað. Endurtakið lauf út umferð svo það séu 7 lauf. Festið með keðjulykkju efst í loftlykkjurar þrjár í byrjun en stingið nálinni einnig niður á milli stuðlanna tveggja úr umferðinni á undan, áður en bandið er sótt.






Ath: Perlurnar enda á því að liggja soldið skakkar, en persónulega finnst mér það flott. Mögulega væri þó fallegt að gera eina loftlykkju áður en perlan er sett uppá nálina, en það er smekksatriði :)

4. umf:
Heklið 3 loftlykkjur (jafngildir stuðli) og heklið einn stuðul á sama stað (í miðjunni á fyrsta laufinu). *Heklið 2 loftlykkjur, heklið tvo stuðla í miðjuna á laufinu, heklið 2 loftlykkjur, heklið tvo stuðla í bilið á milli laufanna*. Endurtakið á milli * og * út umferð, festið á sama hátt og áður með keðjulykkju.

5. umf:
Endurtakið 3. umferð.

6. umf:
Endurtakið 4. umferð, en í staðinn fyrir 2 loftlykkjur á milli stuðlastoða, er einungis gerð ein.

7. umf:
Endurtakið 3. umferð en í staðinn fyrir 5 stuðla hvoru meginn, eru einungis 4.

8-9. umf:
Endurtakið 6-7 umferð.

10. umf:
Endurtakið umferð 6, en í staðinn fyrir 1 loftlykkju, er engin.
*Ath. þetta er í raun stuðlastoðaumferð, en ég setti engin krókódílalauf í hana því ég ætlaði að setja lítinn borða eins og belti inná milli gatana. Hinsvegar má vel setja 4-stuðla lauf utanum þessar stuðlastoðir til að losna við götin og halda svo bara áfram með elleftu umferð sem tólftu :)

11. umf:
Heklið eina loftlykkju, *heklið fastapinna á milli stuðlanna tveggja. Heklið fastapinna í bilið á milli stuðlastoða* Endurtakið út umferð (28 fastapinnar).



12. - 34. umf:

Heklið fastapinna í hring upp búkinn ca. 22 umferðir. Þegar ég gerði kjólinn í fyrsta skiptið, miðaði ég lengd bolsins við lengdina á dúkkunni, eða semsagt hvar kjóllinn sæti best á mjöðmunum þannig að fastapinnaumferðirnar næðu akkúrat uppundir brjóstin (sjá mynd fyrir neðan) Síddin á kjólnum er að sjálfsögðu smekksatriði :)

ATH: til að kjóllinn sé fallegri að aftan, er betra að hekla fastapinnana í beinann hring, semsagt vera ekki að festa með kekkju á milli umferða

Þá er að móta kjólinn utanum brjóstin. Þessi partur er ekki brotinn upp skikkanlega eftir umferðum, enda er hann heklaður samfellt eins og búkurinn.

Staðsetning brjóstanna á kjólnum er svosem ekkert svakalega mikilvæg þar sem kjóllinn er nánast alveg eins að framan og aftan, en ég valdi bara lykkju sem er ca. fyrir ofan byrjun fyrstu umferðarinnar og setti ömmuspennu í hana (af því ég á ekki prjónamerki)  og sú lykkja telst vera sú síðasta í umferðinni.

Að merktu lykkjunni ómeðtalinni, heklið 11 fastapinna í næstu 11 göt. Í tólfta gatið heklið 6 fastapinna, síðan einn fastapinna í næstu fjögur göt (hér þarf að passa að hoppa ekki óvart yfir það fyrsta því þetta verður allt mjög þétt og stíft) heklið síðan aftur 6 fastapinna í næsta gat. Heklið fastapinna út umferð.

Heklið 3 umferðir af fastapinnum.

Nú þarf að færa prjónamerkið upp "beint á ská" eins og sjá má á næstu mynd (ath. að þegar ég tók myndina var ég komin aðeins lengra, en þið sjáið allavega hvað ég á við með "beint á ská" :P )

Að merktu lykkjunni ómeðtalinni, heklið 18 fastapinna. Heklið næstu 2 lykkjur saman og svo næstu tvær lykkjur eftir það saman (þetta eru lykkjurnar fjórar á milli brjóstanna). Heklið fastapinna út umferð.

Heklið eina umferð.

Í næstu umferð er handvegurinn mótaður:
Færið prjónamerkið upp aftur.
Að merktu lykkjunni ómeðtalinni, heklið 6 fastapinna. Heklið 12 loftlykkjur. Hoppið yfir fimm göt. Heklið 6 fastapinna. Heklið næstu tvær lykkjur saman og svo næstu tvær lykkjur eftir það saman. Heklið 6 fastapinna. Heklið 12 loftlykkjur. Hoppið yfir fimm göt. Heklið 10 fastapinna.


Inní handveginn: 2x fastapinni, 2x hálfur stuðull, 2x stuðull, 1x tvöfaldur stuðull, 2x stuðull, 2x hálfur stuðull, 2x fastapinni.
Heklið einn fastapinna, setjið síðan keðjulykkjur í næstu 11 göt og 1 fastapinna í næsta gat.
Heklið inní seinni handveg eins og þann fyrsta.
Heklið keðjulykkjur í næstu 4 göt.


Slítið frá og gangið frá endum.

Og þar hafiði það :) 

Ekki hika við að senda mér línu ef þið hafið einhverjar spurningar eða ef þið takið eftir villu, ég er enn að æfa mig í uppskriftarskrifum :)



Einnig, ef þið heklið kjólinn, þætti mér svakalega skemmtilegt ef þið mynduð pósta mynd af honum á facebook-vegginn hjá mér :D

Kv. Jódís Eva

föstudagur, 28. mars 2014

Sjö ára vinátta í myndum :)



Patrek og Rebekka í mars, 2014

Hún Rebekka mín hefur ekki átt marga vini utan leikskólatímans, við fjölskyldan erum soldið einangruð og hittum að öllu jöfnu frekar fáa, fyrir utan að við bjuggum ekki í sama hverfi og leikskólinn hennar var í... en sem betur fer á hún frænda sem hefur henni verið soldið eins og bróðir allt hennar líf.

Ég er búin að vera að flokka myndirnar mínar soldið núna undanfarið og tók eftir því hversu rosalega margar sætar myndir ég á af þeim saman og mig langar til að raða þeim öllum upp í sögu, held að það verði mjög gaman að eiga í framtíðinni, bæði fyrir þau og mig :)

Maí, 2007
Þetta tel ég vera fyrstu myndina af þeim saman, þarna er Rebekka 3ggja mánaða og Patrek er þarna undir henni í bumbunni :)


Júní, 2007
Fyrsta ALVÖRU myndin af þeim saman, tekin uppá spítala stuttu eftir að Patrek fæðist :) Rebekka minnir mig alltaf einhvernvegin á nýklaktann fuglsunga á þessari mynd, soldið eins og hún sé að segja "Hey, sko hvað ég fann!"


Júní 2007
Hér er Patrek tiltölulega nýfæddur, búin að hlekkja sig utanum lífsreynda, fjögurra mánaða frænku sína í von um stuðning í þessum erfiða heimi.


Október 2007
Smá stökk í tíma, hér eru þau aðeins farin að stálpast :)


Febrúar 2008
Fyrsta kossamyndin af mörgum, þau eru nú hætt þessu í dag en fyrstu árin voru þau alltaf eitthvað að kyssast og knúsast :)

Sumar 2008
Patrek hjálpar Rebekku að renna upp í Kjarnaskógi :)



Nóvember 2008
Tilraun í jólamyndatöku, Rebekka eitthvað aðeins of knúsug fyrir Patrek :P



Desember 2008
Þessi mynd var nú þegar komin í þessa færslu en þar sem hún er í algjöru uppáhaldi, verður hún með hérna líka :) Þarna eru þau nýkomin af dagmömmujólaballi :)


Sumar 2009
 Passað uppá hvort annað í Kjarnaskógarferð.


Sumar 2009
Rebekka að brynna Patrek...


Sumar 2009
Svo sæt :)



Sumar 2009
Þetta er alveg leiðinlegasta þríhjól allra tíma, alveg vonlaust á komast eitthvað áfram á því án þess að sprengja sig af áreynslu... en þau kunnu lag á því :)



Október 2009
Smá nestisferð á Svalbarðseyri haustið 2009 :)


Febrúar, 2010
Á Glerártorgi á öskudaginn.


Desember 2010
Við jólatréð á aðfangadagskvöld :)

Nóvember 2011







Þarna eru þau orðin fjögurra ára og það er orðið töluvert erfiðara að ná mynd af þeim saman, man að ég gekk heillengi á eftir þeim þarna til að fá þau til að setjast uppí glugga og leyfa mér að smella einni :P

Nóvember 2012
Fimm ára og alltaf jafn góðir vinir :)

Desember 2012
Þarna eru þau að læra að dansa á meðan beðið er eftir matnum á aðfangadag, 2012 :)

Nóvember 2013
Ein úr jólamyndatökunni 2013, plús Atlas minn.


Mars 2014
Og svo allra nýjasta myndin, tekin núna á dögunum :)

Já, þar hafiði það :) Rosalega er ég ánægð með söguna mína, ef það er eitthvað sem ég elska, þá er það falleg ljósmyndasaga :) Vonandi get ég komið með framhaldssögu eftir nokkur ár :)



miðvikudagur, 26. mars 2014

Uppskrift fyrir Barbie: Brúðarkjóll og sumarkjóll.

    Undanfarin ár, og sérstaklega síðasta mánuð, hef ég haft brennandi áhuga á því að hanna prjóna- og hekluppskriftir; ... en það verður að horfast í augu við staðreyndir: til að þróa uppskrift og fullkomna, verður að endurtaka hana nokkrum sinnum. Og mér tekst það óskaplega sjaldan...
    Þegar ég byrja fyrst að pæla í uppskrift fer heilinn á mér gjörsamlega á óverdræf og kemur upp með 50 þúsund hugmyndir og ég hekla/prjóna eins og djöfullinn sé á hælunum á mér eins margar hugmyndir og ég mögulega get áður en áhuginn deyr út - þetta kalla ég "brainstorming"... en svo þegar kemur að því að skrifa niður, endurtaka eða fínslípa, þá lek ég niður eins og deigklumpur og kem nákvæmlega engu í verk... sem þýðir jú, mikið af frumlegheitum.... en ekkert meira en það :P Einhverjir myndu kannski ráðleggja mér að skrifa niður jafnóðum, og hef ég oft reynt það.. en þar sem ég rek upp svona ca milljón sinnum og prufa nýtt, fer bara hreinlega ALLT í graut. Ég skrifa samt sumt niður, ég segi það ekki :)

Allavega... nýjasta æðið eru barbie-kjólar: mjög heppilegt verkefni fyrir mig þar sem hver og einn tekur ekki nema eina- eina og hálfa kvöldstund og möguleikar á frumlegheitum eru lúmskt margir :)

Ég hef ákveðið að gefast upp í bili á því að útbúa fullkomna uppskrift og ætla í staðinn bara að setja inn myndir af uppáhaldskjólunum mínum með lauslegri lýsingu á aðferðinni sem ég notaði :) Þeim sem taka sér fyrir hendur að prufukeyra þetta er ráðlagt að vera með barbiedúkku við hendina á meðan heklið stendur yfir til að sannreyna stærðir :)

Anyways hér kemur fyrsti kjóllinn...

Kjólatörnin 2014 byrjaði á þessum brúðarkjól sem er heklaður úr Mandarin Heklugarni með nál nr 2. Ég var nýbúin að læra svona krókódílahekl útfrá þessari uppskrift (lærði það reyndar alveg snarvitlaust fyrst af því ég kann ekki að lesa...en það er annað mál) og sá fyrir mér réttilega að það myndi koma vel út neðst á pilsi, sérstaklega með smá perlum og smá fastapinnakafla á milli krókódílalaufa svo perlurnar gætu betur notið sín :)

Ég ákvað að ég vildi hafa kjólinn soldið útvíðann og tvöfaldaði því uppfitið úr jólatrésuppskriftinni (112 loftlykkjur). Ef ég man rétt, þá gekk eitthvað brösulega að fá stuðlastoðirnar til að passa rétt, en 56 loftlykkjurnar ganga heldur aldrei alveg upp hjá mér því ég hekla svo undarlega :P... en allavega hagræddi ég þessu þannig að ég fékk upp 28 stuðlastoðir sem síðan urðu 14 krókódílalauf. Ég ætla ekki að lýsa því hér hvernig ég heklaði perlurnar á en þær eru líka aukaatriði hérna :)
 ATH: hérna má finna upplýsingar (og myndir) um hvernig á að hekla perlurnar í :)

Næst gerði ég síðan 3 umferðir af fastapinnum (84 í hverri umferð). Aftur krókódílahekl, en í þessari umferð er einungis ein loftlykkja á milli stuðlastoða og sömuleiðis einungis einn fastapinni á milli. Svo gerði ég aftur 3 umferðir af fastapinnum.
 
Pilsið er svo tekið inn með því að gera þrjár stuðlastoðaumferðir, semsagt tveir stuðlar og tvær loftlykkjur til skiptis. Hjá mér urðu það 21 stuðlastoð í hverri umferð, en það er ekkert heilög tala.
Í næstu þrem umferðum eru enn 21 stuðlastoð, en einungis 1 loftlykkja á milli þeirra. Loks eru þrjár umferðir þar sem engin loftlykkja er.
Þetta er soldið ruglingslega orðað hjá mér kannski, en þetta er allt eitthvað slump bara og jafnast út á endanum :P

Þá taka við fastapinnar í gríð og erg, ca. 40 umferðir, eða uppfyrir rassinn. Þeir eru 42 í fyrstu umferð (einn fyrir hvern stuðul í umferðinni á undan) en svo fór ég að fækka þeim jafnt og þétt sitthvoru megin þangað til mér fannst kjóllinn vera orðinn hæfilega þröngur. Ég þrengdi þennan aðeins of mikið af því hann virtist í fyrstu gefa svo mikið eftir, en svo varð ekki raunin hehe...en ég var allavega með 36 lykkjur eftir 6 umferðir :)

Eins og sjá má, er bakið alveg opið. Framstykkið er heklað fram og til baka og eru ca. 30 lykkjur í fyrstu umferðinni, en síðan er tekin út ein lykkja í byrjun hverrar umferðar þangað til 16 lykkjur eru eftir.. Hérna strandaði ég enn og aftur þegar ég ætlaði að fara að gera "alvöru" uppskrift" því ég er ekki alveg klár á því hvernig ég á að orða þennan part rétt... en vonandi gera myndirnar eitthvað gagn  (ath. að á þessari mynd og þeim sem á eftir koma er búið að hekla kant meðfram öllu framstykkinu sem var að sjálfsögðu gert eftir á, en gæti ruglað einhverja örlítið á þessu stigi málsins).
Ath: hérna sést soldið vel hversu alltof þröngur kjóllinn er, rassinn sést í gegn :P

Hérna sést úrtakan ágætlega.

Þegar úrtökunni var lokið, heklaði ég 6 umferðir af fastapinnum. Í sjöundu umferðinni mótaði ég svo hálsmálið (2x tvöfaldur stuðull, 2x stuðull, 1x hálfur stuðull, 6x fastapinni, 1x hálfur stuðull, 2x stuðull, 2x tvöfaldur stuðull). 
Svo heklaði ég fastapinnakannt kringum allt framstykkið til að jafna það út og festi (löng) loftlykkjubönd báðum megin og svo var bara að troða tilvonandi brúður í meistaraverkið!

Ég prufaði svo að gera annan kjól með mjög svipuðu sniði:
Hérna eru bara 56 loftlykkjur í uppfitinu og krókódílaheklið er alveg eins og í jólatrésuppskriftinni. Síðan taka við fastapinnar eins og í hvíta kjólnum, aðeins tekið inn eftir þörfum og endar í ca. 40 fastapinnum. Svo er heklað beint upp fyrir mittið og framstykkið gert eins :) 

Vonandi getur einhver nýtt sér þetta, ekki hika við að skilja eftir comment ef það eru einhverjar spurningar :)

Kv. Jódís Eva

mánudagur, 17. mars 2014

Dúkku-hárnæring!

Ég er búin að vera á fullu við að útbúa uppskrift að barbie-kjól(um) og því mikið búin að umgangast dúkkur heimilisins og taka myndir af þeim... og þvílík flókatrippi!

Þá mundi ég eftir pinna sem ég fann á Pinterest fyrir soldlu síðan, pinna sem ég hafði óskaplega litla trú á, þetta leit út eins og galdrar! ... og viti menn, þetta virkaði eins og galdrar :O

Pinninn mælir með því að setja smá mýkingarefni í spreybrúsa og fylla hann svo upp með vatni og spreyja í hárið á dúkkum áður en maður greiðir þeim. Engann átti ég brúsann, en setti glundrið í staðinn í mjólkurglas. Fyrst byrjaði ég bara á því að dýfa greiðu ofaní, en í lokin var ég bara farin að dýfa hárinu sjálfu ofaní og kreista aukavatnið úr.

Ég mæli með því að setja handklæði í fangið áður en byrjað er því þær fóru allar soldið mikið úr hárum (þó ekkert óeðlilega, það var bara mikið af lausum hárum föst í flókanum)

Hér má sjá afraksturinn :)
Það er ekki nema mánuður síðan þessi skreið úr kassa og því hárið ekki mikið flókið, en það er krullað og var byrjað að verða soldið tjásulegt. Mér tókst að greiða í gegnum þetta á undir tveim mínútum :)
Þessi er ögn eldri, eða síðan um jólin og kominn soldið góður flóki... en það var sama sagan, hann rann allur úr á innan við þrjár mínútur :)
Gat ekki TRÚAÐ ÞVÍ að þetta flókatrippi, í orðsins fyllstu merkingu, myndi nokkurntíma geta orðið svona glæsilegt :P Hann Maximus er búin að veltast um í dótakössum núna í 2.5 ár og dúið að sjálfsögðu eftir því. Það tók aðeins lengri tíma en með Bratz að kúga faxið til hlýðni, en það var samt orðið alveg rennislétt eftir rúmlega 5 mínútur :D Ákvað svo bara að skella honum í smá klippingu í leiðinni :P

Og svo: Le Piece de Réstistance! EEEELDGÖMUL dúkka sem ekki var lengur með hár heldur bara eitthvað sem leit út eins og köttur hafi hrækt því upp! Það var eins og að reyna að greiða lopapeysu sem hefur verið þæfð í þvottavél, jafnvel þegar ég hafði dýft henni í mýkingarglundrið. En viti menn, þetta hafðist! Ég braut fjórar tennur úr greiðunni í látunum, en fjandinn hafi það, það hafðist!! Auðvitað er hárið enn voða púffað, en það er hægt að greiða alls staðar í gegnum það og þá er nokkuð stór sigur unninn :P
Já þar hafiði það! Ég held í alvörunni að engin hefði getað gefið mér betri gjöf þegar ég var lítil en leið til að geta greitt barbie-dúkkunum mínum aftur, mæli eindregið með þessu :)

fimmtudagur, 13. mars 2014

Fyndnar Fjölskyldumyndir :P

Ég hef alltaf haft mjög gaman að því að taka myndir og fannst fátt skemmtilegra í gamla daga en að komast yfir einnota vél (átti aldrei alvöru filmuvél)... en áhuginn kviknaði ekki fyrir alvöru fyrr en árið 2005 þegar ég eignaðist mína fyrstu digital vél. ÞVÍLÍK BYLTING!! Að geta prufað og fiktað og tekið fáránlegar myndir sem hægt var að skoða strax án þess að þurfa að eyða tíma og pening í framköllun, bara snilldin ein! :D Þegar dóttir mín fæddist svo 2007 jókst áhuginn enn meira og ég get ekki ímyndað mér hversu margar myndir ég hlýt að hafa tekið af henni og bróður hennar gegnum tíðina. Flestar þeirra eru náttúrulega bara svona fjölskyldualbúms-efni sem bara nánustu ættingjar hafa gaman að, en inná milli leynast þó miklir gullmolar sem ég bara verð að deila áfram!
Ég veit að internetið er yfirfullt af myndum af sætum og fyndnum krökkum, en vonandi getiði samt hlegið aðeins með mér að snillingunum mínum ;)

**Þið afsakið allar þessar merkingar á myndunum, grafísk hönnun hefur alltaf verið mikið áhugamál hjá mér og því var ég alltaf að leika mér að gera alls konar lógó sem eru soldið mis-ljót :P Ég nennti ekki að safna original myndunum saman og því eru þessar allar teknar af Flickr og facebook :)**

Þessar myndir voru teknar á aðfangadagskvöld 2008 og Rebekka tæplega tveggja ára var ekki alveg að standa sig í að sitja kjurr og borða matinn sinn, heldur fann sér eitthvað girnilegra :P Svipurinn á seinni myndinni er svo kominn af því ég kallaði á hana og puttinn alveg rauk úr nefinu :P




Hér er Atlas líka tæplega tveggja ára sumarið 2012 og systir hans fimm ára var alveg á fullu við að blása á biðukollur eins og það væri það auðveldasta í heimi. Ja minn maður lærði að það lá margra ára þjálfun að baki glæsilegra blás-hæfileika Rebekku og að það er stórhættulegt að vera viðvaningur í þessari grein! (og nei, hann var ekki að gráta, bara að gretta sig og reyna að skafa fræin af tungunni :P Ég hló bara smá... svo fór ég og hjálpaði honum ;) )




Þessi mynd er í miklu uppáhaldi hjá módelinu sjálfu, hún hlær eins og bavíani í hvert sinn sem hún sér hana. Hérna er Rebekka semsagt ca. 18 mánaða og þetta tignarlega höfuðfat er poki sem ég heklaði úr afgöngum til að smegja yfir myndavélina mína í rigningu. Tegjan var semsagt ekki hönnuð fyrir Rebekku Bollukinn :P




Þessar myndir eru teknar í 2ggja ára afmælisveislu Atlasar 2012. Hann setti afmælishattinn svona á sig sjálfur og það var ekki fyrr en ég skoðaði myndirnar í tölvunni um kvöldið að ég sá hvað þetta minnti mikið á mímið góða :P




Þessi mynd er tekið sumarið 2009. Ég var semsagt að reyna að ná flottri mynd af splassinu og fékk þessa frábæru grettu í kaupbæti :D




Rebekka og Patrek frændi hennar að klessa saman fésunum og kalla það koss :P Það eru fjórir mánuðir á milli þeirra og þau eru bestu vinir :)





Atlas nokkra vikna gamall árið 2010... myndavélin var ekki alveg að höndla dúndurkraftinn í hnerranum og allt fór í blörr :P





Þetta köllum við The Zoolander í módel bransanum :P





Þessar myndir eru teknar á Þorláksmessu 2011, allar á innan við fimm mínútur :P






Hér má sjá Rebekku fjögurra ára að puttaprjóna af lífi og sál og ef dæma má á svipnum, þá finnst henni það ekki slæmt (e. Not bad)





Ég var rosalega mikið á 9gag 2011-2012  og alveg gegnumsýrð af meme-fyndni :P Hér var ég að sjálfsögðu að stæla þetta meme :P





 Önnur af Rebekku og Patrek að kyssast, nýkomin af jólaballi 2008. Mér finnst þessi mynd yndisleg af mörgum ástæðum en allra helst af því hvernig Rebekka stendur með rassinn úti loftið :P





 Í lokin ætla ég að setja eina af okkur Rebekku frá 2009, ekki besta myndin af mér en mér þykir agalega vænt um hana :P

Takk fyrir að skoða, endilega deilið áfram ef þið höfðuð gaman að :)

Kv. Jódís Eva