Efnisorð

föstudagur, 6. júní 2014

Tveggja manna Alias fyrir börn!


Ég: "Hey, Rebekka, ég fékk hugmynd um hvernig við getum spilað Alias án þess að þurfa að þykjast vera tveir karakterar hvor. Ef við tökum tening..."
Rebekka: "... þá getum við bara kastað teningnum til að sjá hvað við förum áfram um marga reiti! Svo skiptumst við á að spurja!"
Ég: "NÁKVÆMLEGA!" 

Já, þannig æxlaðist það semsagt að við 7 ára dóttir mín uppgötvuðum svona næstum því á sama tíma frábæra leið til að spila Alias bara tvær þrátt fyrir að það sé annars fyrir fjóra eða fleiri. Mér finnst þetta nefnilega svo æðislegt spil, bæði af því það er svo skemmtilegt, og líka af því það er svo svakalega góð æfing fyrir litla heila að lesa orðin, sum hver heillöng, og reyna að lýsa þeim. 

Svona er þetta gert:
Borðpjaldið er sett upp eins og í venjulegu útgáfunni en ekki er nauðsinlegt að setja snúningsörina í miðjuna því spilarar skiptast bara á að gera (við settum hana samt upp bara til að fikta í henni, t.d. setja teninginn uppá og snúa svo þannig að þeytist útí buskann :P) Sá sem á að gera fyrstur kastar teningnum. Hann fær t.d. fjóra og tekur þá fjölskylduspjald og spyr um eitt orð (við flettum bara nokkuð frjálslega í gegnum bunkann í leit að góðum orðum af því Rebekka skildi þau auðvitað ekki öll). Þegar hinn hefur náð svarinu, fer sá sem spurði áfram um þessa fjóra reiti. Svo gerir hinn á móti, kastar og spyr að einu orði og fer svo áfram um eins marga reiti og teningurinn sagði til um. Svona gengur það koll af kolli þar til annar kemur í mark. Eina keppnin er í raun í hvaða tala kemur upp á teningunum, orðagiskið er bara svona auka lærdómsrík skemmtun :)

Svo má náttúrulega flækja málin aðeins. T.d. að nota tímateljarann og hafa þau skilyrði að ef annar hefur ekki giskað á x-mörg orð innan tímans, að þá fer hinn afturábak um x-marga reiti eða bara fær ekki að fara áfram um neina reiti fyrr en í næstu umferð. En sú útgáfa felur í sér mikið traust og heiðarleika, því sá sem er að giska má auðvitað ekki halda aftur af sér til að hinn missi stig. Ef tvö börn eru að spila ein myndi ég segja að einfaldari útgáfan sé mun betri, en við Rebekka ætlum að prufa þessa þegar hún er orðin aðeins sleipari í þessu :)

Já, mig langaði bara svo rosalega mikið til að deila þessu með ykkur því þetta finnst mér algjört snedderí :) Í lokin ætla ég að setja inn mynd sem ég tók þegar við vorum að ganga frá... hér má sjá The Hulk, gula Pollann, Evu Appelsínu, Íþróttaálfinn og jólasveininn í yfirliði eftir að draugurinn kom og hræddi þau :P
Góða skemmtun!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli