Efnisorð

miðvikudagur, 27. ágúst 2014

Uppskrift - Zig-Zag Armband

Þessi uppskrift finnst mér rosalega skemmtilegt, ég hafði hvergi séð zig-zag aðferðina áður en ég prufaði hana þannig að hún er allavega 100% original fyrir mér þó hún sé örugglega til einhversstaðar ;) 





Þið þurfið:
    *Heklugarn af einhverju tagi. Ég hef notað Mandarin heklugarn en persónulega finnst mér það ekki nógu sterkt, frekar nota ég heklugarn sem ég fæ í Föndru (á Akureyri, en það er væntanlega líka til í Föndru fyrir sunnan) Man bara engan vegin hvað það heitir, en það er miklu meira glansandi en Mandarin og hnökrar nákvæmlega ekki neitt þrátt fyrir að ég fari með armbandið í sturtu og vaski upp með það og hvaðeina :) Ég set inn nafnið næst þegar ég kaupi mér hnykil og ef einhver veit hvað ég er að tala um má sá hinn sami endilega upplýsa mig :)
    *Heklunál nr 1.0 (þessi nál er tæknilega séð aðeins of lítil fyrir garnið en þetta kemur mun betur út ef það er mjög þétt. Sömuleiðis passar þessi nál í gegnum flestar perlur :)
    *Ca. 16 perlur með allavega 1mm gati. Ath. ef þær eru í stærri kantinum gæti aðeins þurft að fækka fastapinnum um einn eða tvo í 16.-17. skrefi.
    *"Hook and eye" festingar. Það er hægt að sjá mynd af slíku neðst í þessari uppskrift, annars er hægt að nota hvaða festingar sem er, t.d. eru mjög fallegar segulfestingar í Föndurlist

Byrjum þá :) Passið að hafa soldið langt skott í byrjun til að sauma niður festingarnar seinna :)



Já þá er það komið :) Ef þið hafið einhverjar spurningar endilega skrifið komment hérna á síðunni eða sendið mér línu á Facebook. Já og ekkert gleður mig meira en að sjá myndir af því sem er heklað eftir uppskriftunum mínum þannig að endilega skellið þeim á vegginn hjá mér :)

Kv. Jódís Eva

föstudagur, 6. júní 2014

Tveggja manna Alias fyrir börn!


Ég: "Hey, Rebekka, ég fékk hugmynd um hvernig við getum spilað Alias án þess að þurfa að þykjast vera tveir karakterar hvor. Ef við tökum tening..."
Rebekka: "... þá getum við bara kastað teningnum til að sjá hvað við förum áfram um marga reiti! Svo skiptumst við á að spurja!"
Ég: "NÁKVÆMLEGA!" 

Já, þannig æxlaðist það semsagt að við 7 ára dóttir mín uppgötvuðum svona næstum því á sama tíma frábæra leið til að spila Alias bara tvær þrátt fyrir að það sé annars fyrir fjóra eða fleiri. Mér finnst þetta nefnilega svo æðislegt spil, bæði af því það er svo skemmtilegt, og líka af því það er svo svakalega góð æfing fyrir litla heila að lesa orðin, sum hver heillöng, og reyna að lýsa þeim. 

Svona er þetta gert:
Borðpjaldið er sett upp eins og í venjulegu útgáfunni en ekki er nauðsinlegt að setja snúningsörina í miðjuna því spilarar skiptast bara á að gera (við settum hana samt upp bara til að fikta í henni, t.d. setja teninginn uppá og snúa svo þannig að þeytist útí buskann :P) Sá sem á að gera fyrstur kastar teningnum. Hann fær t.d. fjóra og tekur þá fjölskylduspjald og spyr um eitt orð (við flettum bara nokkuð frjálslega í gegnum bunkann í leit að góðum orðum af því Rebekka skildi þau auðvitað ekki öll). Þegar hinn hefur náð svarinu, fer sá sem spurði áfram um þessa fjóra reiti. Svo gerir hinn á móti, kastar og spyr að einu orði og fer svo áfram um eins marga reiti og teningurinn sagði til um. Svona gengur það koll af kolli þar til annar kemur í mark. Eina keppnin er í raun í hvaða tala kemur upp á teningunum, orðagiskið er bara svona auka lærdómsrík skemmtun :)

Svo má náttúrulega flækja málin aðeins. T.d. að nota tímateljarann og hafa þau skilyrði að ef annar hefur ekki giskað á x-mörg orð innan tímans, að þá fer hinn afturábak um x-marga reiti eða bara fær ekki að fara áfram um neina reiti fyrr en í næstu umferð. En sú útgáfa felur í sér mikið traust og heiðarleika, því sá sem er að giska má auðvitað ekki halda aftur af sér til að hinn missi stig. Ef tvö börn eru að spila ein myndi ég segja að einfaldari útgáfan sé mun betri, en við Rebekka ætlum að prufa þessa þegar hún er orðin aðeins sleipari í þessu :)

Já, mig langaði bara svo rosalega mikið til að deila þessu með ykkur því þetta finnst mér algjört snedderí :) Í lokin ætla ég að setja inn mynd sem ég tók þegar við vorum að ganga frá... hér má sjá The Hulk, gula Pollann, Evu Appelsínu, Íþróttaálfinn og jólasveininn í yfirliði eftir að draugurinn kom og hræddi þau :P
Góða skemmtun!

mánudagur, 2. júní 2014

Perlu-Minecraft!

Aðeins öðruvísi færsla í dag :)
Eins og ég var búin að nefna á facebook nýlega, þá keypti ég mér loksins straujárn til að eiga aðeins auðveldara með að sauma, og með það á heimilinu gat ég loksins gengið aftur í barndóm og PERLAÐ :D

Fögur sjón, n'est pas? :D
Stukkum út og keyptum nokkur form og eitthvað litabland og byrjuðum að dunda. Eftir að hafa gert regnboga og töfrasprota og nokkrar húsa-tilraunir, fannst okkur tilvalið að prufa að búa til eitthvað úr uppáhaldstölvuleiknum hennar Rebekku, Minecraft :D Pabbi hennar var settur í það verk að finna mynd af zombie til að fara eftir, og frá þeim tímapunkti hafði ég ekkert að gera annað en að taka myndir af því Ásbjörn varð svo óskaplega spenntur fyrir þessu (enda Minecraftari sjálfur). Ja jú, ég fékk góðfúslegt leyfi til að safna saman hinum og þessum litum fyrir þau...

 
Flottir perlarar! (og flottar litahrúgurnar mínar, já ég veit...)
Þarna eru perlurnar komnar á spjaldið.
Ungfrú Tannlaus gífurlega ánægð með afraksturinn. (ath að hvítu blettirnir eru glærar bláar perlur til að fá smá detail, dagsbirtan skín bara asnalega í gegnum þær hehe, sjá næstu mynd ;) )
Straujaði þá báðum megin til að gera þá sterkari
Rebekka með allt perl dagsins :)
Zombie-lyklakippa :D
Næsta verkefni verður klárlega Creeper í stíl :) :)

miðvikudagur, 28. maí 2014

Uppskrift: Heklað Perluarmband

Halló halló! Þessari uppskrift ætlaði ég að vera búin að pósta fyrir löööngu  :D

Þið þurfið:
    *Mandarin heklugarn eða sambærilegt (er líka búin að gera svona úr Steinbach Wolle glimmer-heklugarni :) )
    *Heklunál nr 1.0 (þessi nál er tæknilega séð alltof lítil fyrir garnið en þetta kemur mun betur út ef það er mjög þétt. Sömuleiðis passar þessi nál í gegnum flestar perlur :)
    *16-20 perlur.
    *"Hook and eye" festingar (eins og á brjóstahöldurum, sjá mynd neðst).

ATH: Stundum eru stafirnir ekki alveg nógu skýrir hjá mér af því myndirnar þjappast soldið, en ef þið klikkið á þær, opnast þær í nýjum glugga mun stærri :)

Njótið vel :)









Ekki hika við að hafa samband ef eitthvað er óskýrt, annað hvort hérna eða á facebook-síðunni minni :)

Kv. Jódís Eva

sunnudagur, 13. apríl 2014

Uppskrift: Blómadúlla



Þessi dúlla er frekar lík þessu blómi en er þó ekki alveg og ég er orðin aðeins flinkari í að skrifa uppskriftir síðan þá :)

Ég kýs að öllu jöfnu að nota engar skammstafanir í uppskriftirnar mínar en ég ætla að útskýra hér þá einu sem ég nota: "2ll-gat" eða "3ll-gat" og þá á ég við gat sem myndast þegar heklaðar eru 2 eða 3 loftlykkjur í umferðinni á undan.
Uppskriftin er öll bundin í myndum í þetta sinn, er enn að þreifa mig áfram með hvernig er best að setja þetta fram, endilega segið mér hvað ykkur finnst og endilega skellið mynd á facebook vegginn minn ef þið gerið svona :)

Garnið heitir Steinbach Wolla og er bómullargarn sem er mjög svipað mandarin petit og heklunálin er nr 3.5

ATH: í lok hverrar umferðar er garnið fest við byrjun umferðar með keðjulykkju.

Njótið vel!


































föstudagur, 4. apríl 2014

Uppskrift: Árniður - heklaðar ermar!

Nafnið Árniður fékk ég með því að biðja um aðstoð við nafngiftinna inná facebook síðunni Handóðir Heklarar og var það kona að nafni Jónína Kjartansdóttir sem stakk uppá því. Mér fannst það passa einstaklega vel því bakstykkið minnir mig soldið á öldutoppa :)

Þegar ég var að ákveða stærðina á þessum ermum var ég með 7 ára dóttur mína í huga, en þær eru hannaðar þannig að rosalega auðvelt er að þrengja eða víkka handveginn og lengja ermarnar eftir þörfum og óskum þegar fram líða stundir. Þannig að hvort sem á að hekla á 3ggja ára eða 10 ára, er byrjað eins :)

Þessar tilteknu ermar voru heklaðar með nál nr 3.5 úr þessu 100% bómullargarni á næstu mynd en fyrsta atrennan að ermunum var hekluð úr King Cole Glitz akrýl-garni úr rúmfatalagernum og stærðin varð nánast alveg sú sama. Til að minnka hana örlítið, myndi ég nota lanett eða kambgarn og nota nál nr. 2.5 :)

Aðferð:
Byrjað er í miðjunni á bakstykkinu og heklað fram og til baka langsum. Síðan er slitið frá og heklað frá miðjunni alveg eins í hina áttina til að mynda speglun. Handvegirnir eru síðan heklaðir saman og kantur heklaður í hring utanum búkinn og framan á ermarnar.

Vindum okkur í þetta :)

Bakstykki, fyrri partur:

1. umf: Helkið 123 loftlykkjur.

2. umf: í 3 lykkjuna frá nálinni heklið 1 fastapinna. Heklið fastapinna út umferð (122 fp)

3. umf: Heklið 2 loftlykkjur og heklið fastapinna í næstu lykkju. Heklið fastapinna út umferð (122 fp)

4. umf: Heklið 3 loftlykkjur og setjið stuðul í næstu lykkju. Heklið 1 loftlykkju og hoppið yfir næstu lykkju.
 *Heklið stuðul í næstu lykkju, heklið 1 loftlykkju, hoppið yfir næstu lykkju*
Endurtakið allt á milli * og * út umferð þangað til 3 lykkjur eru eftir, heklið þá eina loftlykkju, hoppið yfir næstu lykkju og setjið stuðul í síðustu tvær lykkjurnar. (60 1ll-göt)

5. umf: Þessi umferð er eins og 4. umferð: Heklið 3 loftlykkjur, heklið stuðul í aðra lykkjuna. Heklið síðan stuðla og loftlykkjur til skiptis þannig að stuðlarnir sitji ofaná stuðlunum úr 4. umferð. Endið á tveim stuðlum hlið við hlið.

6. umf: Heklið 2 loftlykkjur og heklið fastapinna í næstu lykkju. Í fyrsta 1ll-gatið, heklið 1 fastapinna. Í öll hin 1ll-götin nema það síðasta, heklið 2 fastapinna. Í síðasta fer 1 fastapinni. Heklið fastapinna í síðustu 2 lykkjurnar.

7. umf: endurtakið 3. umferð.

8. umf: Heklið 2 loftlykkju og heklið fastapinna í næstu lykkju.
*Heklið 4 loftlykkjur, hoppið yfir 3 lykkjur, heklið fastapinna í næstu lykkju*
Endurtakið allt á milli * og * út umferð = 30 stór göt.Endið á 1 fastapinna í síðustu lykkjuna.


9. umf: Heklið 2 loftlykkjur og heklið fastapinna í næstu lykkju. Inní fyrsta 4ll-gatið heklið þið 1 fastapinna.
 *inní næsta 4ll-gatið heklið þið 4 stuðla, 2 loftlykkjur og 4 stuðla. Heklið einn fastapinna í næsta 4ll-gat. Heklið 4 loftlykkjur. Stingið nálinni inní 3 loftlykkjuna, dragið bandið í gegn og einnig í gegnum lykkjuna nú þegar á nálinni (í raun bara keðjulykkja svo myndist lítill knúpppur). Heklið 3 loftlykkjur. Heklið einn fastapinna í næsta 4ll-gat.*
Endurtakið allt á milli * og * þangað til komið er að næst-síðansta 4ll-gatinu. Inní það fer 4st, 2 ll, 4st, og í síðasta gatið fer 1 fastapinni. Heklið tvo fastapinna í síðustu 2 lykkjurnar í umferðinni.




 10. umf: Heklið 3 loftlykkjur og heklið stuðul í næstu lykkju.
 *Heklið fimm loftlykkjur og heklið fastapinna í næsta 2ll-gat. Heklið 5 loftlykkjur og heklið keðjulykkju í gegnum næsta keðjulykkjuknúpp*
Endurtakið allt á milli * og * út umferð. Endið á fastapinna í síðasta 2ll-gatið, heklið 5 loftlykkjur og heklið stuðul í síðustu 2 lykkjurnar.


11. umf: Heklið 2 loftlykkjur og heklið 1 fastapinna í næstu lykkju. *Inní næsta 5ll-gat heklið 5 fastapinna. Heklið fastapinna í næstu lykkju. Inní næsta 5ll gat heklið 5 fastapinna. Heklið svo fastapinna á sama stað og keðjulykkjan fór í 10. umferð: í gegnum keðjulykkjuknúppinn úr 9. umferð* Endurtakið allt á milli * og * út umferð. Endið á fastapinna í síðustu 2 lykkjurnar.


 12 - 22. umf: Endurtakið 3. umferð.
Slítið frá.
*ATH!* Ef þið viljið hafa  ermarnar þrengri, er hægt að hafa færri fastapinnaumferðir hérna. Af því ermarnar eru speglaðar, er hægt að rekja upp báðum megin áður en handvegurinn er heklaður saman sem er mjög hentugt :)



Bakstykki, seinni partur:

Snúið verkinu eins og næsta mynd sýnir:


**Passið mjög vel að verkið snúi rétt, semsagt að 9. umferð snúi pottþétt upp því ef þið byrjið óvart vitlausu megin, speglast ermarnar ekki rétt (ég gerði þau mistök í fyrstu atrennu á uppskriftinni, þá byrjaði ég hinum megin og þurfti að slíta frá og færa mig yfir þegar kom í ljós að 9. umferð hérna megin passaði ekki við hinum megin :P Þetta er ekki neitt sem fólk tekur eftir... en samt :)

1. umferðin af seinni partinum er miðjan á verkinu og er eins og 4. umferðin af fyrri partinum. Heklað er í baklykkjurnar á uppfitinu eins og sést á myndinni fyrir neðan.

2. umferðin er eins og 6. umferð af fyrri partinum en er í raun 1. umferð ef maður er að spá í spegluninni. Þetta er örlítið ruglingslegt af fyrrabragði, en næsta mynd útskýrir það vonandi betur :)
3. umferðin er eins og 2. umferðin af fyrri partinum og svo er bara haldið áfram með 3-22 umferð af fyrri parti. 


Á þessum tímapunkti er komin stórfínn löber eða jafnvel taska ef þetta er brotið saman og saumað fóður inní :P En ég ætla að gera þetta að ermum og held því áfram á þeirri leið. Hinsvegar get ég ekki verið jafn nákvæm frá þessum tímapunkti því kantarnir geta verið soldið misjafnir eftir því hvernig maður gerir næsta skref.

Handvegur:

Nú þarf að hekla eða sauma saman þá parta af stykkinu sem verða handvegirnir. Ég heklaði saman 20 lykkjur hvoru megin, en hversu mikið er heklað saman fer eftir stærð barnsins. 20 lykkjur er passlegt fyrir dóttur mína sem er mjög grönn og 7 ára, en svo passaði það líka ágætilega á son minn sem er þéttur bolti en bara þriggja og hálfs. Þannig að ég myndi ráðleggja ykkur að fá að máta ermarnar á barnið sem á að fá þær :) Munið samt að verkið á eftir að tegjast soldið þegar skolað er úr því, sérstaklega útaf öllum stóru götunum.



Búk-kantur:

Nú er komið að því að hekla búk-kantinn (ég kalla þetta búk-kant því ég hef ekki betra orð, þetta er semsagt kanturinn sem liggur meðfram handvegunum, yfir axlirnar og yfir bakið).

1. umf: Inní annað hvort handakrikahornið, heklið 3 loftlykkjur, heklið stuðul í sömu lykkju, heklið 2 loftlykkjur og 2 stuðla, allt í sömu lykkju. *Hoppið yfir 4 lykkjur. Í næstu lykkju heklið 2 stuðla, tvær loftlykkjur og 2 stuðla*. Endurtakið allt á milli * og * út umferð. Ég var með 33 stykki af 2st-2ll-2st laufum á mínum ermum, en þessi tala getur verið misjöfn eftir því hversu mikið var heklað saman af handveginum. Festið með keðjulykkju efst í 3ll í byrjun umferðar.
      *ATH* Ef það passar ekki fullkomlega að hafa 4 lykkjur á milli allra laufana er bara að hagræða þessu örlítið eftir þörfum, endinn á umferðinni lendir undir handleggnum og því mjög erfitt að sjá ef t.d. 2 síðustu laufin eru bara með 3 lykkjur á milli sín.

2. umf: heklið keðjulykkju inní fyrsta 2ll-gatið. Heklið 3 loftlykkjur. Heklið 2 stuðla, 2 loftlykkjur, og 3 stuðla. *Í næsta 2ll-gat, heklið 3 stuðla, 2 loftlykkjur og 3 stuðla.* Endurtakið allt á milli * og * út umferð og festið með keðjulykkju við byrjun umferðar.
Slítið frá.


Erma-kantur

1. umf: Hér þarf fyrst að hekla fastapinnakant til að jafna ermarnar út. Hjá mér urðu það 51 fastapinni en þessi tala getur rokkað örlítið án þess að sjáist neinn munur. Þetta er ca. 1 fastapinni fyrir hverja fastapinnaumferð á bakstykkinu og tveir fyrir hverja stuðlaumferð. Festið með keðjulykkju við byrjun umferðar.

2. umf: Þessi umferð er eins og 1. umferð af búk-kantinum. Ég var með 11 stykki af 2st-2ll-2st laufum hérna, en eins og á búk-kantinum, er þessi tala ekki heilög.
3. umf: Heklið keðjulykkju inní næsta 2ll-gat. Heklið 3 loftlykkjur, 1 stuðul, 2 loftlykkjur, og 2 stuðla í sama gat. *Í næsta 2ll-gat heklið 2 stuðla, 2 loftlykkjur, 2 stuðla.* Endurtakið allt á milli * og * út umferð og festið með keðjulykkju við byrjun umferðar.
4. umf: Hekluð eins og 2. umferð af búk-kantinum.
5. umf: Endurtakið umferðina á undan. 

Heklið eins á hina ermina.
Slítið frá og gangið frá endum.

Það er soldið bras að skola úr þessum ermum og móta þær svo þær verði fallegar, en ég myndi mæla með að láta þær þorna á svona uppblásnu herðatré eins og t.d. þessu 

Já, þar hafiði það :) Ég er búin að lesa ca. milljón sinnum yfir uppskriftina og er búin að grípa nokkrar villur og laga en þetta er allt farið að dansa fyrir augunum á mér á þessum tímapunkti og ég bara verð að pósta þessu áður en ég verð rugluð hehe :P Ef þið rekið augun í eitthvað misræmi eða eitthvað sem er illskiljanlegt, þá bið ég ykkur innilega um að láta mig vita svo uppskriftin geti verið sem nákvæmust, ég vil að ALLIR skilji hana, ekki bara lengra komnir :) Og auðvitað ef gengur vel væri gaman að heyra það líka, ég er enn að æfa mig í uppskriftarskriftum :)

Einnig ef þið heklið svona ermar, þætti mér alveg gjörsamlega yndislegt ef þið mynduð linka á uppskriftina mína eða facebook vegginn minn ef þið póstið mynd af þeim einhversstaðar (og megið jafnvel skella myndinni á facebook-vegginn hjá Snedderíi :)

Með bestu kveðju,
Jódís Eva